Um mig

Ég er fæddur og uppalinn á Djúpavogi og er sennilega, líkt og flestir sem hafa alist upp í litlu sjávarplássi á Íslandi, að mestu leiti mótaður af því umhverfi sem ég ólst upp í og hugurinn því sjaldan langt í burtu frá Búlandsnesinu. Ég var snemma heillaður af animation og að teikna, mála og skapa tónlist og hef ég helgað mest allt mitt líf þessum listgreinum. Eftir að hafa lokið  stúdentsprófi við Menntaskólann á Egilsstöðum gáfu við Jónas vinur minn út plötuna „Sólstrandargæjarnir“ en hún bar nafn hljómsveitarinnar. Næstu misseri á eftir höfðum við félagarnir atvinnu af hljómsveitinni og gáfum út tvær plötur í viðbót áður en hljómsveitin hætti. 

Árið 1997 fluttum ég og Alla konan mín til Danmerkur og bjuggum í Kaupmannahöfn næsta fjóra og hálfa árið. Þar tók ég eins árs nám í Traditional Animation og í kjölfarið af því fékk ég inngöngu í BA nám í Computer Visualization & Animation við Bournemouth University.
Að loknu háskólanámi í Englandi tók ég til starfa hjá Double Negative VFX í London og vann þar næstu árin sem Animator og Technical Director við margar mismunandi kvikmyndir. Reynslan sem ég öðlaðist innan Double Negative reyndist mér ómetanleg. Ég fékk jafnan mjög frjálsar hendur sem listamaður í verkefnum þar og náði að læra af einstakalega hæfileikaríku fólki og eignast þar marga vini til lífstíðar.

Eftir fjögur og hálft  ár hjá Double Negative gekk ég til liðs við Framestore Animation þar sem ég starfaði næstu tvö árin. Hjá Framestore vann ég við ótrúlega skemmtileg og skapandi verkefni eins og til dæmis The Tale of Despereaux,The Golden Compass og Avatar. Sumarið 2009 var mér svo boðin staða hjá Cinesiteog fékk tækifæri til að vinna við gerð á nýrri mynd frá Disney Pixar en það var of stórt tækifæri til að láta fram hjá sér fara og næstu tvö árin vann ég við gerð myndarinnar John Carter. Þegar vinnu við John Carter var að ljúka var mér boðið starf hjá The Moving Picture Comapany í London og þar er ég við störf  í dag

Ég er búsettur í London ásamt eiginkonu minni Aðalbjörgu Ólafsdóttur og börnum okkar.